Erlent

Bush varði stefnu sína í Írak

George Bush Bandaríkjaforseti varði stefnu sína í Írak í ræðu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag. John Kerry, mótframbjóðandi Bush í bandaríska forsetaembættið, nýtur dvínandi fylgis en í gær sneri hann vörn í harða gagnsókn og veðjaði á Írak sem besta kosningamálið. „Núna segir Bush okkur að hann myndi gera allt aftur á sama hátt,“ sagði Kerry. „Hvernig í ósköpunum getur honum verið alvara? Er hann virkilega að segja bandarísku þjóðinni að ef hann hefði vitað að engin ógn væri yfirvofandi, engin gereyðingarvopn og engin tengsl við al-Kaída, ættu Bandaríkin samt að ráðast inn í Írak? Svar mitt er þvert nei.“ Bush svaraði þessum pillum um hæl og benti á að Kerry hefði á sínum tíma stutt innrásina. En það er svo sem ekki bara á heimaslóðum sem Bush sætir gagnrýni fyrir Írak. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, lýsti því yfir í síðustu viku að Íraksstríðið hefði verið ólögmætt og í setningaræðu sinni á Allsherjarþinginu í dag hjó hann í sömu knérunn og ítrekaði að þjóðir heims yrðu að fara að lögum. Bush var næstur á mælendaskrá og í ræðu sinni lagði hann áherslu á það stríð sem stæði á milli frjálsra lýðræðisþjóða annars vegar og hryðjuverkamanna hins vegar. Ekki væri hægt að loka augunum og láta ofbeldi og kúgun viðgangast. „Við getum búist við því að hryðjuverkaárásum fjölgi þegar nær dregur kosningum í Afganistan og Írak. Starfið fram undan er krefjandi. En þessir erfiðleikar draga ekki úr þeirri sannfæringu okkar að framtíð Afganistans og Íraks sé framtíð frelsis,“ sagði Bush á þinginu í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×