Innlent

Siv í varaformaður efnahagsnefndar

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun Siv Friðleifsdóttir, fráfarandi umhverfisráðherra, taka við embætti varaformanns efnahags- og viðskiptanefndar þegar þing kemur saman á ný eftir næstu mánaðamót. Gengið verður frá skipan þingmanna í þingnefndir á þingflokksfundi Framsóknarflokksins á þriðjudag. "Það hefur ekki verið rætt við mig um þessi mál sérstaklega," sagði Kristinn H. Gunnarsson, núverandi varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. "Þegar fyrirséð var að breytingar yrðu á niðurröðun í nefndir með tilkomu eins þingmanns, þá voru menn spurðir að því hvort þeir hefðu einhverjar sérstakar óskir og ég hafði engar slíkar," sagði Kristinn. Hann sagðist ekki telja óeðlilegt að einhver tilfærsla yrði innan þingliðsins í ljósi þess að óbreyttum þingmönnum flokksins fjölgar úr sex í sjö. Siv Friðleifsdóttir vildi ekki staðfesta hvort hún yrði varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar. "Þingflokkurinn mun taka ákvörðun um það á þriðjudaginn," sagði Siv, sem er erlendis en verður komin heim fyrir þingflokksfundinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×