Erlent

Stuðningur við Kerry dvínar

Stuðningur við John Kerry í forsetakosningunum í Bandaríkjunum virðist fara dvínandi. Kosningastjórar hans binda nú vonir við að vel gangi í fyrstu sjónvarpskappræðum frambjóðendanna sem haldnar verða í vikunni.  Það blæs ekki byrlega fyrir John Kerry þessa dagana. George Bush hefur mælst með heldur meira fylgi en Kerry nú í margar vikur og virðist aðeins vera að sækja í sig veðrið. Fylgiskannanir sýna að Bush hefur fjögur til tólf prósentustiga forskot á Kerry þegar mælt er fylgi meðal þeirra Bandaríkjamanna sem hafa skráð sig til kosningaþátttöku. Forskot Bush er jafnvel enn meira afgerandi þegar litið er á fjölda kjörmanna. Sigurvegarinn þarf stuðning 270 kjörmanna til að hneppa forsetastólinn og eins og staðan er núna hefur Bush stuðning 311 kjörmanna en Kerry aðeins 217. Kosningabarátta Kerrys hefur tekið mið af þessum tölum og nú leggur hann ofuráherslu á Írak í málflutningi sínum í þeirri von að geta grætt á óánægju Bandaríkjamanna með framvindu mála þar. Í gær lýsti Kerry því yfir að innrásin í Írak hefði verið glappaskot að því leyti að stríðið þar beindi athyglinni frá hinu raunverulega stríði, það er baráttunni gegn hryðjuverkum. Kerry sagði það hafa verið mistök hjá Bush að setja Saddam Hússein efst á forgangslistann í stað Osama bin Ladens. Fyrstu sjónvarpskappræður frambjóðandanna verða haldnar nú á fimmtudaginn og eiga þær einmitt að snúast um utanríkismál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×