Innlent

Þingmenn hleyptu kostnaðinum upp

Alþingi verður sett næstkomandi föstudag en framkvæmdunum er rétt nýlokið. Að sögn Karls M. Kristjánssonar, rekstrar- og fjármálastjóra Alþingis, er um umfangsmiklar lagfæringar að ræða. Þannig var skipt um jarðveg undir húsinu þar sem að gólf lágu undir skemmdum vegna raka. Ný gólfefni hafa verið lögð í stórum hluta hússins og hafa veggir verið málaðir í sínum upprunalegu litum, hlýjum jarðartónum. "Það ríkti nokkur litagleði þegar húsið var byggt á sínum tíma og þessir litir hafa nú verið endurvaktir," segir Karl og bætir því við að mörg lög af málningu hafi verið skafin af veggjum svo að finna mætti upphaflega lagið. Það er skondin tilviljun að herbergi sumra þingflokkanna eru nú í litum sinna stjórnmálaflokka og þannig er herbergi framsóknarmanna nú grænt á lit. Einnig hefur verið bætt úr lýsingu í sjálfum þingsalnum. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 75 milljónir króna en þegar er ljóst að reikningurinn mun fara yfir 100 milljónir vegna ýmissa liða sem ekki var gert ráð fyrir. "Meðal annars varð veruleg röskun á framkvæmdunum í sumarbyrjun vegna þess að þinghald dróst mun lengur en menn bjuggust við. Þar við bættist sumarþing og þá varð enn meiri truflun á verkinu sem kostaði sitt," bætir Karl við. Stefnt er að frekari endurbótum næsta sumar sem meðal annars miða að því að bæta aðgang fatlaðra að þingpöllum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×