Erlent

Frakkar nýti sér íslenskan hagvöxt

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hitti Jean-Pierre Raffarin, forsætisráðherra Frakklands, að máli í Hotel Matignon, embættisbústað þess síðarnefnda í París í gær. Þetta var fyrsti fundur Halldórs með erlendum starfsbróður frá því að hann tók við embætti forsætisráðherra um miðjan þennan mánuð. Ráðherrarnir ræddu stöðu alþjóðamála, þar á meðal málefni Miðausturlanda. Halldór Ásgrímsson sagði að þeir hefðu sérstaklega rætt um íslensku menningarkynninguna sem hófst í París í gær og Raffarin hefði þegið boð um að heimsækja Ísland, vonandi á næsta ári. Jean-Pierre Raffarin sagði í samtali við fréttamenn að rætt hefði verið um Írak og hann og íslenski forsætisráðherrann hefðu haft "svipaða afstöðu um margt þrátt fyrir fyrri ágreining um aðferðir"; eins og hann orðaði það. Efnahagssamvinna landanna var einnig til umræðu og sagði Raffarin að stórfyrirtæki hefðu nú þegar nýtt tækifærin en jafnvel lítil og meðalstór fyrirtæki í Frakklandi ættu að hafa hag af því að "njóta góðs af hagvextinum á Íslandi"; landi sem væri "jafn stórt að sniðum og það væri þokkafullt"; eins og Raffarin orðaði það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×