Erlent

Baulað á Blair

"Ég veit að þetta málefni hefur klofið þjóðina. Ég skil fullkomlega hvers vegna margir eru ósammála ákvörðuninni," sagði Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, þegar hann fjallaði um innrásina í Írak og þær deilur sem hún hefur valdið í bresku samfélagi. Hann sagðist þó engan veginn geta beðist afsökunar á því að taka þátt í að steypa Saddam Hussein af stóli. Ræðu Blairs á þingi Verkamannaflokksins var beðið með eftirvæntingu. Viðbrögðin voru að sumu leyti eftir því. Sumir andstæðingar innrásarinnar bauluðu á forsætisráðherrann og gripu fram í fyrir honum meðan hann hélt ræðuna. Ræðuna flutti Blair í skugga þess að hryðjuverkamenn hóta að myrða breskan gísl og ekki bætti úr sök að tveir breskir hermenn létust í fyrirsát íraskra vígamanna í gær. Blair viðurkenndi að sumar upplýsingar sem innrásin var byggð á hefðu reynst rangar og kvaðst geta beðist afsökunar á því. Það breytti því þó ekki að Bretar ættu að ljúka verkefninu sem þeir hefðu hafið og styðja við bakið á írösku þjóðinni í enduruppbyggingu lands þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×