Innlent

Segir Kristin hafa fengið viðvörun

"Kristinn er ekki rekinn úr flokknum. Þetta er viðvörun. Félagar hans í þingflokknum sætta sig ekki við framgöngu hans og telja að hann geti ekki gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn," segir Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. Þingflokkur Framsóknarflokksins ákvað á þriðjudag að útiloka Kristin H. Gunnarsson þingmann úr öllum fastanefndum þingsins. "Kristinn rekst ekki í flokknum og hefur tapað því sem hann hefur fengið. Hann átti mikil tækifæri innan Framsóknarflokksins, varð formaður þingflokksins og formaður stjórnar Byggðastofnunar, hvort tveggja ráðherraígildi. Þessu hefur hann tapað niður. Þótt hann beri kannski ekki alla ábyrgð á þessu verður hann sjálfur að líta í eigin barm hvernig þetta hefur þróast," segir Guðni. Mikil óánægja er meðal framsóknarmanna víðs vegar um landið um ákvörðun þingflokksins. Sigrún Magnúsdóttir, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur suður, segir að athæfi þingflokksins sé refsivert. "Ég hef aldrei séð jafn gróft einelti sem á sér stað fyrir framan alþjóð að auki," segir hún. "Kristinn hefur verið í andstöðu við flokksforustuna í að minnsta kosti tveimur málum, en ekki er þar með sagt að hann hafi verið í andstöðu við flokksmenn," segir hún. "Í stað Kristins eru komnir tveir unglingar með ábyrgðarmikil störf í þingnefndum. Börnin eru að taka yfir. Þau hlýða þó," segir Sigrún. "Það er aðeins einn sannleikur í Framsókn," segir Sigrún. Albertína Elíasdóttir, formaður Félags ungra framsóknarmanna á norðanverðum Vestfjörðum, segir aðgerðir þingflokksins verulega harkalegar og lóð á vogarskálar þeirra sem gagnrýnt hafa Framsóknarflokkinn fyrir að leyfa ekki fleiri en einni skoðun að heyrast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×