Erlent

Alvarleg mistök skipta bara máli

Kappræðurnar í Bandaríkjunum í kvöld skipta ekki meginmáli í kosningabaráttunni nema því aðeins að frambjóðendurnir geri alvarleg mistök. Þetta segir góðvinur Bush eldri sem staddur er hér á landi. Hann telur að Bush yngri hafi forskot í kosningabaráttunni vegna þess að hann sé einfaldlega viðkunnanlegri en Kerry.  James Humes sagnfræðiprófessor hefur góða innsýn í bandarísk stjórnmál enda hefur hann aðstoðað og skrifað ræður fyrir fimm Bandaríkjaforseta: Eisenhower, Nixon, Ford, Reagan og Bush eldri. Humes er staddur hérlendis til að halda fyrirlestra um bandarísk stjórnmál og ætlar að sjálfsögðu fylgjast grannt með sjónvarpskappræðunum í nótt. Hann telur þó ólíklegt að þær komi til með að skipta sköpum í kosningabaráttunni. Hann segir fjölmiðlana nefnilega gera meira úr mikilvægi kappræðnanna en efni standa til. Humes segir Kerry verða að standa sig vel í kappræðunum því hann sé með lakari stöðu. Prófessorinn segir þetta þó ekki form sem komi honum að gagni og reyndar sé þetta engar kappræður. „Sá sem er viðkunnanlegri og sýnir af sér meira þokka í sjónvarpinu vinnur,“ segir Humes. Þrátt fyrir að Bush hafi forskot og sé líklegri til að standa sig betur í kappræðunum leggur Humes áherslu á að sigurinn sé síður en svo í höfn. Bush myndi vinna í dag en hann gæti gert eitthvert axarskaft. „Bush eldri leit á úrið sitt í kappræðunum við Clinton og virtist hugsa: „Æ, við skulum ljúka þessu.“ Þetta skaðaði Bush eldri,“ segir James Humes.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×