Innlent

Kjósendur velji lista

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni á flokkstjórnarfundinum í gær að það væri sérstakt hlutverk hreyfingar jafnaðarmanna að bregðast við því sem hann kallaði "lýðræðislega firringu" eða áhuga- og þátttökuleysi almennings í stjórnmálum. "Samfylkingin þarf að ganga lengra á þessari braut. Í þessu samhengi er eðlilegt að skoða í fullri alvöru hugmyndir um að í kosningum fái kjósendur ekki aðeins að velja flokk heldur líka tækifæri til að velja einstaklinga og raða þeim í sæti. Með því móti væri valréttur allra kjósenda aukinn, og prófkjörin gerð óþörf í leiðinni." Formaður Samfylkingarinnar fullyrti að flokkur hans væri sá eini á Íslandi sem hefði sett beint lýðræði á dagskrá og nefndi íbúaþing í sveitarfélögum sem flokkurinn stýrði sem dæmi og áherslu flokksins á þjóðaratkvæðagreiðslur. En Össur vill ganga lengra og segir til álita koma að velja í "almennum beinum kosningum" þá embættismenn sem hafi hlutverki að gegna í varðstöðu um almenn "lýðréttindi og skoðanafrelsi". "Hví kjósum við ekki beint í embætti eins og útvarpsstjóra, umboðsmann alþingis og umboðsmann neytenda sem bæði ríkisstjórn og Samfylking hafa lagt til að verði sett á laggir?" Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar,kynnti á flokkstjórnarfundinum starf framtíðarhóps sem er liður í málefnavinnu flokksins. Er þar meðal annars að finna hugmyndir um aðferðafræði til að meta hvaða verkefni fari best að einkaaðilar taki að sér og hvað verkefni skuli vera í höndum opinberra aðila.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×