Erlent

Fyrsti innflytjandi í ráðherrastól

Ibrahim Baylan varð í gær fyrsti innflytjandinn í sögu Svíþjóðar til að taka við embætti ráðherra í stjórn landsins. Göran Persson forsætisráðherra skipaði Baylan í embætti menntamálaráðherra í uppstokkun sinni á ráðherrum sænsku stjórnarinnar. Baylan fæddist í Tyrklandi en fluttist til Svíþjóðar þegar hann var tíu ára gamall. Reynsla hans endurspeglast í einu af áhersluatriðum hans. Hann segist ætla að beita sér fyrir því að gera innflytjendabörnum auðveldara fyrir að aðlagast sænska skólakerfinu. "Þetta er tækifæri fyrir mig til að taka þátt í umbótum á skólunum okkar," sagði Baylan eftir að tilkynnt var um skipun hans. "Ég hef fylgst með Ibrahim um margra ára skeið. Hann er undir það búinn að verða ráðherra því hann hefur góða þekkingu á málefnunum og hefur náð þroska í stjórnmálum," sagði Persson. Sænska stjórnin hefur átt undir högg að sækja í skoðanakönnunum undanfarið og sagði Persson að hún hefði aldrei jafnað sig eftir að kjósendur höfnuðu stefnu hennar í kosningu um upptöku evrunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×