Innlent

Nýr meirihluti L-lista og D-lista á Héraði

Forráðamenn L-lista Héraðslistans, sem er listi félagshyggjufólks, og D-lista Sjálfstæðisflokks, undirrituðu í kvöld samkomulag um samstarf í meirihluta bæjarstjórnar sameinaðs sveitarfélags Austur-Héraðs, Fellahrepps og Norður-Héraðs. Skúli Björnsson, oddviti L-lista og Soffía Lárusdóttir, oddviti D-lista, undirrituðu meirihlutasamkomulagið sem gildir fram að næstu sveitarstjórnarkosningum árið 2006. Soffía Lárusdóttir verður forseti bæjarstjórnar og Skúli Björnsson verður formaður bæjarráðs. Listarnir eru sammála um að ganga til viðræðna við Eirík Björn Björgvinsson, fráfarandi bæjarstjóra Austur-Héraðs, um starf bæjarstjóra hins nýja sveitarfélags. Í tilkynningu frá fulltrúum nýs meirihluta segir að stefnan sé að skapa öflugt og fjölskylduvænt sveitarfélag, með skilvirka stjórnsýslu verði í stakk búin til að takast á við lögboðnar skyldur sem og ný verkefni. Markmiðið sé að efla Héraðið sem félags- og menningarheild og treysta þar mannlíf til framtíðar. Auk þess sem fram kemur í meirihlutasamkomulagi L-lista og D-lista, byggir starf meirihlutans á Málefnaskrá vegna atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaganna og viðauka hennar. Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar verður haldinn 3. nóvember næstkomandi og þá verður meirihlutasamkomulagið kynnt fulltrúum minnihluta bæjarstjórnar með formlegum hætti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×