Innlent

Óeining í stjórnarskrárnefnd

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segir skipunarbréf stjórnarskrárnefndarinnar bjóða heim óeiningu strax í upphafi starfsins. Jónína Bjartmarz, alþingismaður Framsóknarflokksins, sakar Samfylkinguna um geðvonsku á nýju ári. Stjórnarkrárnefndin á samkvæmt skipunarbréfi að skoða fyrsta, annan og fimmta kafla stjórnarskrárinnar sem taka einkum til hlutverks forseta í stjórnskipan landsins svo og dómstólanna. Ingibjörg Sólrún segist hafa rætt þetta við Jón Kristjánsson, formann nefndarinnar, og hann hafi fullvissað hana um að ekki standi til að binda hendur nefndarinnar. Hún segist ekki vita hvernig beri að skilja hvers vegna þetta hafi ratað inn í erindisbréf nefndarinnar. Samfylkingin telur ýmislegt benda til að fyrst og fremst eigi að ræða hluverk forsetans en óskabreytingar Samfylkingarinnar, til að mynda að landið verði eitt kjördæmi og að löggjafarvaldið verði styrkt gegn framkvæmdavaldinu, sé ekki á dagskrá. Ingibjörg segir vinnu nefndarinnar dæmda til að mistakast ef efna eigi til hennar í einhverri óeiningu og það séu hagsmunir þjóðarinnar allrar að menn nái vel saman í nefndarvinnunni.   Jónína Bjartmarz, fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni, segir að Samfylkingin hafi farið með vitlausan fótinn fram úr á nýju ári. Það sé ekkert í skipunarbréfinu sem banni að stjórnarskráin sé öll undir en hún telur að það sé enginn vilji, ekki einu sinni hjá Samfylkingunni, að fara að skoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar núna. Og Jónína sakar Samfylkinguna um að búa til ágreining og vera með óþarfa geðvonsku sem engin ástæða sé til. „Þeir eiga að vera menn að meiri að taka þátt í þessu starfi af fullum heilindum strax í byrjun,“ segir Jónína.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×