Innlent

Ríkið brátt skuldlaust við útlönd

Skipti ehf. greiddi íslenska ríkinu 66,7 milljarða króna síðdegis í gær fyrir Landssíma Íslands. Þar af greiddi félagið rúma 32 milljarða króna í erlendri mynt og verður þeim hluta greiðslunnar varið strax til þess að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Davíð Oddsson utanríkisráðherra segja þetta sögulega stund. Að teknu tilliti til gjaldeyrisvarasjóðs Seðlabankans og 25 milljarða afgangs á ríkissjóði, sem einnig verður varið til að greiða upp erlendar skuldir, verði íslenska ríkið sem næst skuldlaust við útlönd um næstu áramót. "Við leggjum inn fé í Seðlabankann og fáum þar vaxtatekjur en léttum jafnframt af okkuri vaxtabyrði með greiðslu erlendra skulda. Við reiknum með að þetta eitt bæti hag ríkissjóðs um fjóra milljarða króna á næsta ári," segir Geir Haarde. Ráðgert er að verja um 15 milljörðum króna til samgöngubóta á árunum 2007 til 2010. Þar af verður um 10 milljörðum króna varið til lagningar Sundabrautar og annarra samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. Þá er ráðgert að verja alls 18 milljörðum króna á fimm ára tímabili til uppbyggingar hátæknisjúkrahúss á Landspítalalóðinni. Einnig er ætlunin að verja milljörðum til kaupa á varðskipi, uppbyggingar fjarskiptaþjónustunnar og nýrra búsetuúrræða fyrir geðfatlaða svo nokkuð sé nefnt



Fleiri fréttir

Sjá meira


×