Erlent

Rafmagnað andrúmsloft á kjördag

Norskir kjósendur ganga að kjörborðinu í dag og kjósa til Stórþingsins. Spennan er í hámarki en fylgiskannanir gærdagsins, þær síðustu fyrir kosningar, benda til þess að rauðgræna bandalagið hafi aftur náð vopnum sínum eftir að hafa síðustu vikuna misst niður forskot sitt gagnvart Kjell Magne Bondevik og borgarflokkunum. Höfðað hefur verið til kjósenda borgarflokkanna að kjósa Vinstriflokkinn, frjálslyndan smáflokk, en með því móti gæti hann komist yfir fjögurra prósenta fylgismörkin sem þarf til að öðlast rétt til uppbótarþingsæta. Kannanir hafa sýnt að undanförnu að Vinstriflokkurinn eigi góða möguleika á að ná allt að níu þingsætum í stað tveggja og aukið þannig líkur á áframhaldandi stjórn Kristilega þjóðarflokksins og Hægriflokksins með fulltingi Framfaraflokksins. Nú hefur það hins vegar gerst að Kristilegi þjóðarflokkurinn og Hægriflokkurinn tapa um tveggja prósentustiga fylgi hvor flokkur á sama tíma og Vinstriflokkurinn heldur sér yfir fjögurra prósenta markinu. Verkamannaflokkurinn, Sósíalíski vinstriflokkurinn og Miðflokkurinn, eða hið svonefnda rauðgræna bandalag, hafa aftur á móti bætt við sig og fengi 87 þingsæti á norska Stórþinginu á móti 81 þingsæti sem kæmu í hlut borgaraflokkanna. Jens Stoltenberg þykir hafa staðið sig vel í kosningaslagnum síðustu dagana, einkum í sjónvarpi þar sem hann mætir tíðast Kjell Magne Bondevik. Vinstrisveiflan á síðustu metrunum er einkum rakin til þessa. Úrslit kosninganna í dag geta ráðist á tiltölulega fáum atkvæðum og kosningaþátttökunni sjálfri, en kannanir benda til þess að hún verði varla undir 90 prósentum. Fylgi Framfaraflokksins mælist áfram mikið eða liðlega 21 prósent. Áframhaldandi minnihlutastjórn Kjell Magne Bondevik er nauðugur einn kostur að reiða sig á stuðning eða hlutleysi Framfaraflokksins í þinginu, en stjórn hans getur haldið velli þar til samþykkt yrði vantrauststillaga á stjórnina á norska Stórþinginu. Óvíst er um stuðning Framfaraflokksins og Carls I. Hagen við Kjell Magne Bondevik og í ljósi nýjustu fylgiskannanna virðast möguleikar Jens Stoltenbergs á að mynda meirihlutastjórn hafa aukist á ný.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×