Innlent

Breytir líklega ekki neinu

Jóhannes Jónsson, einn eigenda Baugs og sakborningur í Baugsmálinu, segir að fréttir helgarinnar hafi fært honum heim sanninn um að rætur Baugsmálsins séu pólitískar. Hann er þó ekki viss um að þetta breyti neinu fyrir framvindu málsins. Jóhannes er staddur erlendis þessa dagana, eins og Jón Ásgeir sonur hans, og hefur því fylgst með því sem gerst hefur um helgina úr fjarlægð. Þetta eru þó mikil tíðindi í hans huga. Þarna komi fram það sem þeir hafi alltaf fullyrt: að það sé pólitík í upphafi þessa máls. Jóhannes kveðst ekki hafa haft minnsta grun um að gögn frá Jóni Geraldi Sullenberger hafi verið send til tollstjóra og skattrannsóknarstjóra. Jóhannes segir að eina sem þessi nýja vitneskja breyti sé að nú sé komin staðfesting á því hvernig tilurð málsins var. Spurður hvort þetta breyti einhverju um efnisinnihald ákæranna, hvort sakagiftirnar séu ekki alveg jafn alvarlegar, segist Jóhannes ekki gera sér nokkra grein fyrir því. „Það hlýtur að vera lögfræðilegt mat sem verði að koma á því,“ segir Jóhannes. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×