Innlent

Fékk ekki bætur fyrir drátt á kransæðaaðgerð

Hæstiréttur hefur sýknað íslenska ríkið af hátt í tíu milljóna króna kröfu manns um bætur fyrir tjón sem hann varð fyrir vegna dráttar sem varð á því að hann fengi viðhlítandi meðferð við kransæðasjúkdómi.

Forsaga málsins er sú að maðurinn leitaði til hjartasjúkdómalæknis á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri árið 1997 vegna verkja. Við rannsókn vaknaði grunur um að hann væri haldinn kransæðasjúkdómi og fór hann í kransæðaþræðingu í október það ár. Auk þess átti hann að fara í kransæðavíkkun og var settur á biðlista vegna þess. Þegar svo kom að aðgerðinni í byrjun árs 1998 kom í ljós að æðarnar höfðu lokast og að ekki væri hægt að víkka þær.

Fram kemur í dómnum að dómkvaddir matsmenn hafi metið manninum 25 prósenta varanlega örorku og þrjátíu prósenta varanlegan miska vegna þess tjóns sem ætla má að hlotist hafi af þeim drætti sem á því varð að hann kæmist í kransæðavíkkun. Maðurinn taldi að verklagsreglur hefðu verið brotnar á sjúkrahúsinu og hélt því fram að vegna veikinda sinna hefði hann átt að komast framar á biðlista. Hæstiréttur féllst ekki á það og telur að að verklagsreglur, sem fylgt hafði verið við forgangsröðun sjúklinga með kransæðasjúkdóma á biðlista, hafi byggst á faglegum viðmiðunum. Íslenska ríkið var því sýknað af kröfu mannsins líkt og gert var í héraðsdómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×