Innlent

Fazmofélagi kýldi Sveppa

Ofbeldismaður, sem oft hefur verið kærður fyrir líkamlegt ofbeldi, kýldi Sverri Þór Sverrisson úr Strákunum í miðbæ Reykjavíkur um helgina. Á heimasíðunni tveir.is tekur hann á móti áskorunum eins og Strákarnir á Stöð 2. Þeir sem standa að síðunni eru úr fazmo-genginu svokallaða en á síðunni mæla þeir gegn ofbeldi.

Ráðist var á Sverri Þór Sverrisson eða Sveppa eins og hann er oftast kallaður fyrir utan Hverfisbarinn aðfaranótt sunnudags og hann kýldur í andlitið. Eins og greint var frá í DV í dag lék Sveppi í leiksýningunni Kalli á þakinu á sunnudeginum og mátti sjá hann þar með glóðarauga. Sveppi sagðist í samtali við NFS í dag ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hann ætlaði að kæra árásina en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Árásarmaðurinn er í vinahópi sem hefur verið kallaður fazmo-hópurinn og hélt meðal annars úti heimasíðu á síðasta ári. Á heimasíðunni mátti finna sögur um slagsmál hópmeðlima þar sem þeir gortuðu sig af líkamsárásum. Fjallað var um síðuna í fjölmiðlum og voru gortsögurnar fjarlægðar.

Síðar á árinu ákváðu einhverjir hópmeðlima að snúa við blaðinu og taka þátt í starfi gegn ofbeldi með v-dagssamtökunum og má lesa um það á nýlegri síðu sem kallast tveir.is. Hvort slagorðið ofbeldið burt hjá Fazmo-strákunum eigi bara við um ofbeldi gegn konum liggur ekki fyrir. Á sömu síðu er áskoranahorn þar sem sá sem réðst á Sveppa tekur við áskorunum gesta síðunnar. Þessar áskoranir má svo horfa á á síðunni og er ekki hægt að segja annað en þeim svipi mjög til þeirra áskorana sem Sveppi tekur ásamt félögum sínum í þættinum Strákunum á Stöð 2. Af því mætti kannski ætla að árásarmaðurinn virtist hafa eitthvert dálæti á Strákunum eða alla vega á uppátækjum þeirra. En þær áskornir sem hann hefur tekið sér fyrir hendur er meðal annars að pissa á sig og láta júdókappa berja á sér. Á síðunni má einnig sjá mynd af Auðuni Blöndal, félaga Sveppa úr Strákunum.

Samkvæmt heimildum NFS hefur árásarmaðurinn verið kærður 28 sinnum fyrir líkamsárásir frá árinu 1998.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×