Erlent

Íhaldsmaður sigurstranglegastur

Anibal Cavaco Silva er líklegastur til að verða næsti forseti Portúgals.
Anibal Cavaco Silva er líklegastur til að verða næsti forseti Portúgals. MYND/AP

Forsetakosningar fara fram í Portúgal í dag. Búist er við að íhaldsmaðurinn Anibal Cavaco Silva fái flest atkvæði, þó ekki svo mörg að hann hreppi forsetastólinn í fyrstu atrennu.

Portúgalar hafa undanfarin ár siglt í gegnum efnahagslegan ólgusjó og því hafa loforð Anibals Cavaco Silva um endurreisn atvinnulífisins fallið í góðan jarðveg. Hann var forsætisráðherra íhaldsmanna á árunum 1985-1995 en þá gjörbylti hann efnahagsumhverfi landsins þannig að margra ára hagvaxtarskeið fylgdi í kjölfarið. Enda þótt forsetinn sé fyrst og fremst sameiningartákn í Portúgal þá getur hann stutt ríkisstjórnina í sinni viðleitni og það hyggst Silva einmitt gera þrátt fyrir að sósíalistar fari með völdin.

Skoðanakannanir frá því fyrir helgi benda til að Silva fái 52 prósent atkvæða í kosningunum í dag. Skekkjumörk eru aftur á móti það mikil að óvarlegt er að slá því föstu að hann fari með sigur af hólmi í fyrstu umferð. Tveir helstu keppinautar hans koma úr röðum sósíalista en þeir hafa báðir gegnt embætti forseta landsins. Ef af síðari umferð verður fer hún fram í næsta mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×