Innlent

Verjendur fá að leggja fram gögn vegna lánveitinga

Héraðsdómur Reykjavíkur varð í morgun við kröfu verjenda í Baugsmálinu um að fá að leggja fram gögn frá endurskoðendaskrifstofunni Price Waterhouse Coopers sem snúa að lánveitingum sem taldar eru varða við lög .

Ágreiningur var um það milli verjenda og Sigurðar Magnúsar Tómassonar, setts ríkissaksóknara í málinu, hvort leggja mætti fram gögnin en verjendur sögðu þau svör við ákveðnum atriðum í skýrslu sem Deloitte vann fyrir lögregluna þegar málið var rannsakað. Málið snýr að tilgreindum lánveitingum sem getið er í ársreikningum fyrirtækisins og ákæruvaldið telur vera ólöglegar.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í málinu, segir skipta miklu máli að fá að leggja fram gögnin. Verjendur telji að í gögnunum felist upplýsingar um það að nánast allur þáttur upphaflega Baugsmálsins sem fjalli um lánveitingar byggist á röngum forsendum.

Gestur segir að gögnin sem úrskurðað var um í dag séu mikilvæg bæði hvað varðar þátt endurskoðenda og annarra. En eins og kunnugt er úrskurðaði Héraðsdómur í síðustu viku að málsmeðferðinni skyldi skipt í tvennt.Þáttur endurskoðendanna verður tekinn fyrir 9. og 10. febrúar næstkomandi. Úrskurðinn í morgun má kæra til Hæstaréttar en Sigurður Mangús Tómassson, settur ríkissaksóknar í málinu, segir óvíst hvort það verði gert. Hann muni íhuga það á næstu sólarhringum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×