Innlent

Gestur tilnefndur í 5. sæti á lista Framsóknar?

Hús Framsóknarflokksins við Hverfisgötu
Hús Framsóknarflokksins við Hverfisgötu MYND/Vilhelm

Endanlegur framboðslisti Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor hefur ekki verið ákveðinn. Ef allir á listanum verða færðir upp um eitt sæti, er hugsanlegt að Gestur Kr. Gestsson, sem lenti í áttunda sæti í prófkjörinu, verði tilnefndur í fimmta sætið.

Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi, sem bauð sig fram í 1. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík á dögunum, tilkynnti í gær að hún tæki ekki sæti á listanum, en hún endaði í 2. sæti í prófkjörinu. Reglur prófkjörsins gerðu ráð fyrir að kosningin væri bindandi í efstu tvö sætin en leiðbeinandi fyrir næstu fjögur. Einnig voru skilyrði um að jafnt kynjahlutfall þyrfti að vera í fjórum efstu sætunum.

Óskar Bergsson, sem sóttist eftir fyrsta sæti á listanum ásamt Önnu og Birni Inga Hrafnssyni en endaði í því þriðja, sagðist í morgun ekki hafa tekið ákvörðun um það hvort hann taki sæti á listanum en muni væntanlega gera það fyrir helgi.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar eru nú tveir kostir í stöðunni: Annars vegar að atkvæðin sem Anna fékk í prófkjörinu verði þurrkuð út og hinir frambjóðendurnir færist þá allir upp um eitt sæti á listanum. Sú hugmynd er uppi að Gestur Kr. Gestsson, sem varð í áttunda sæti í prófkjörinu, verði þá tilnefndur í fimmta sætið, væntanlega til að jafna kynjahlutföllin því annars myndu konur sitja í fjórum af sex efstu sætunum. Hinn möguleikinn er að uppstillingarnefnd tilnefni einhvern í annað sætið.

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, sagði í morgun að nefndin hafi ekki verið skipuð en nefndarskipanin muni liggja fyrir áður en langt um líður.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×