Innlent

Lögreglan á Ísafirði óskar eftir upplýsingum frá almenningi

Frá Ísafirði.
Frá Ísafirði.

Lögregluyfirvöld á Ísafirði hvetja almenning að hafa samband við lögreglu ef grunur leikur á að einhvers konar fíkniefnamisferli eigi sér stað, og heitir uppljóstrurum nafnleynd. Lögfræðingur hjá persónuvernd segir að erfitt gæti reynst að halda nöfnum vitna leyndum, leiði upplýsingar þeirra til ákæru og málaferla.

Hlynur Snorrason, lögreglufulltrúi á Ísafirði, segir samfélagið hafa sofnað á verðinum, en ástand unglingamála á norðanverðum Vestfjörðum, í tengslum við drykkju og fíkniefnanotkun, sé ekki eins gott og það hafi verið oft áður. Upplýsingar frá almenningi er einn liðurinn í því að uppræta fíkniefnamisferli á svæðinu. Hann segir lögregluna hafi leitað til almennings varðandi upplýsingaöflun í gegnum tíðina og það hafi gefið góða raun.

Þórður Sveinsson, lögfræðingur hjá Persónuvernd segir að það hafi aldrei talist óheimilt að hafa samband við lögreglu ef grunur leikur á að grunsamlegt athæfi eigi sér stað. Einstaklingur sé þó saklaus uns sekt sé sönnuð. Þórður segir að hann gefi ekki tjáð sig sérstaklega um upplýsingaöflun lögreglunnar á Ísafirði. Almennt séð gæti orðið erfitt að heita vitnum nafnleynd til langframa, leiði upplýsingar þeirra til ákæru, þar sem sakborningur hefur rétt á að vera viðstaddur í vitnaleiðslum í málaferlum gegn honum. Fólk á einnig aðgang að upplýsingum úr skrám lögreglu svo fremur sem það skaðar ekki rannsóknarhagsmuni en þá reynir á hvernig fara skal með nöfn annarra einstaklinga sem tengjast málinu.

Hlynur segir dómsfordæmi fyrir því að lögreglumaður sem lofar nafnleynd vegna upplýsingagjafar í fíkniefnamálum þurfi ekki að gefa upp nafn viðkomandi. Þeir sem gefa upplýsingar geti því verið óhræddir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×