Innlent

Telur Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn ekki eiga samleið

MYND/Valgarður

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóraefni Samfylkingarinnar, telur að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn eigi ekki samleið í borgarstjórn. Hins vegar geti gömlu R-listaflokkarnir unnið saman áfram þar sem enginn málefnaágreiningur sé á milli þeirra.

Dagur B. Eggertsson var gestur í Hádegisviðtalinu á NFS í dag, enn hann vann nokkuð afgerandi sigur í prókjöri Samfylkingarinnar í gær. Dagur hlaut 47 prósent atkvæða í í fyrsta sætið og leiðir því flokkinn í borgarstjórnarkosningunum í vor. Í viðtalinu sagði Dagur of snemmt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fagna sigri í kosningunum, en samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum fengi Sjálfstæðisflokkurinn meirihluta, eða átta borgarstjórnarfulltrúa.

Dagur telur flokkana sem mynduðu R-listann geta unnið saman eftir kosningarnar en sama sé ekki að segja um Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna. Sjálfstæðisflokkurinn hafi valið sér nagg- og nöldurstefnu í minnihluta í borginni og ekki sett fram neinar skýrar hugmyndir um hvað flokkurinn ætli að gera. Í sveitarfélögum þar sem sjálfstæðismenn séu við völd sé ekki lögð áhersla á velferð og draga hafi þurft flokkinn í eðlileg þjónusturverkefni gagnvart fjölskyldum, ungu fólki og yngstu kynslóðinni.

Aðspurður hvort flokkarnir sem áður mynduðu R-listann myndu ná saman eftir kosningar ef sú staða kæmi upp segir Dagur að þeir myndu gera það málefnalega. Þá séu þó ákveðin hættumerki í því hversu lágur þröskuldur sé hjá nýrri forystu Framsóknarflokksins upp í ból til Sjálfstæðisflokksins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×