Innlent

Oktavía segir vistaskipti sín ekki vera mistök

Oktavía Jóhannesdóttir
Oktavía Jóhannesdóttir MYND/KK

Oktavía Jóhannesdóttir, sem bauð sig fram í prófkjöri sjálfstæðismanna á Akureyri um helgina eftir að hafa gengið úr Samfylkingunni skömmu fyrir áramót, segir vistaskiptin ekki hafa verið mistök. Oktavía sóttist eftir fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins en endaði í því fimmtánda.

Það vakti mikla athygli, og jafnframt reiði margra, þegar Oktavía sagði sig úr Samfylkingunni á milli jóla og nýárs. Í harðorðri ályktun sem stjórn Samfylkingarinnar á Akureyri sendi frá sér vegna ákvörðunar Oktavíu var úrsögn hennar sögð hafa komið félagsmönnum í opna skjöldu og þess einnig krafist að hún segði sig frá störfum í bæjarstjórn. Hún neitaði hins vegar að verða við þeirri kröfu. Þess í stað ákvað Oktavía að sækjast eftir fjórða sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri en það fór fram um nýliðna helgi.

Óhætt er að segja að sjálfstæðismenn hafi hafnað liðsinni Oktavíu í bæjarstjórnarkosningunum sem framundan eru í vor því hún náði aðeins fimmtánda sæti í prófkjörinu. Í samtali við NFS í dag sagði Oktavía að það hafi ekki verið mistök af hennar hálfu að ganga í raðir sjálfstæðismanna í ljósi niðurstöðunnar. Ákvörðunin hafi enda verið tekin að vel athugðu máli. Hún þurfi fyrst og fremst að sýna og sanna að hún sé komin til að starfa fyrir flokkinn í framtíðinni, en sé ekki bara tækifærissinni, og Oktavía kveðst hlakka til þeirra starfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×