Innlent

Stígamót ekki alls kostar ánægð með frumvarp um kynferðisbrot

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir ýmislegt jákvætt, en annað neikvætt, við frumvarpið.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir ýmislegt jákvætt, en annað neikvætt, við frumvarpið. MYND/Vísir

Talskona Stígamóta hefur ýmislegt að setja út á nýtt frumvarp dómsmálaráðherra um kynferðisbrot, þó ýmislegt jákvætt sé þar að finna að hennar mati. Afnám fyrningafrests vegna kynferðisbrota gegn börnum er meðal þess sem hún vildi sjá í frumvarpinu.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra kynnti ríkisstjórninni drög að frumvarpi um endurskoðun laga um kynferðisbrot í gær. Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir ýmislegt jákvætt, en annað neikvætt, við frumvarpið. Það að refsilöggjöfin sé hert sé vissulega af hinu góða. Þá segir hún einnig jákvætt að ætlunin sé að hækka refsirammann í kynferðisbrotum gegn börnum og lengja fyrningafrestinn, en hún kveðst vilja ganga lengra og afnema fyrningar í slíkum málum. Þá segist Guðrún fagna því að kastað hafi verið út þeim "smánarbletti á íslenskri löggjöf" að seljendur vændis séu álitnir sekir. Málið sé hins vegar skilið eftir í lausu lofti því það sé ekki gert refsivert að kaupa sér kynlífsþjónustu.

Og Guðrún hefði viljað sjá þverfaglegri nálgun við vinnu þessa frumvarps, og fleiri, t.a.m. eldra frumvarps um heimilisofbeldi. Stígamót hafi til að mynda ekki fengið að koma að gerð þessara frumvarpa. Guðrún vill að margir aðilar með víðtæka þekkingu fái að koma að svona vinnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×