Innlent

Þriðjungur af bifreiðasköttum til vegagerðar

Skattekjur ríkissjóðs af bifreiðum voru yfir fjörutíu og fimm milljarðar króna á síðustu tíu árum. Af þeim tekjum fóru aðeins rúmir fimmtán milljarðar króna til Vegagerðarinnar. Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að annaðhvort ætti að lækka skattana eða verja meiru til vegagerðar.

Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fyrirspurn um vegamál fyrir samgönguráðherra þar sem hann spurði meðal annars um hverjar hefðu verið skattekjur ríkisins af umferð og bílainnflutningi frá 1995 til 2005, á verðlagi 21. desember 2005. Þingmanninum finnst tölurnar í svari samgönguráðherra vera sláandi.

Kristján segir það athyglisvert að á síðasta ári hafi tekjur ríkissjóðs af bifreiðakaupum, í fyrsta skipti, vera meiri en tekjur af notkun. Tekjurnar af bifreiðakaupum hafi verið rúmlega fimmtíu og þrjú prósent af skattekjum af bifreiðum, en tekjur af notkun rúmlega fjörutíu og sex prósent.

Við þetta má bæta að í svari samgönguráðherra til Kristjáns Möllers láðist að taka olíugjaldið með í reikninginn. Það hækkar skatttekjur ríkissjóðs af bifreiðum um 1,7 milljarða króna og eru heildarskattekjur þá 47 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×