Innlent

Innbrotum snarfækkar í Kópavogi

Innbrotum í Kópavogsumdæmi fækkaði um 36% milli áranna 2005 og 2006, þjófnuðum fækkaði um 21% og eignaspjöllum um 28,5%, samkvæmt skýrslu sem Lögreglan í Kópavogi hefur gefið út. Smáralindin er vinsælasta skotmark búðarþjófa.

Skýrslan inniheldur afbrotatölfræði fyrir árið 2005 og stefnumörkun fyrir árið 2006. Árið 2004 setti lögreglan í Kópavogi sér markmið í fimm málaflokkum fyrir árið 2005 til þess að sporna gegn afbrotum.

Lögreglumenn eru meðvitaðir um markmiðin og hafa lagt sig fram við að ná þeim. Árangur varð framar björtustu vonum í þremur fyrrgreindum málaflokkunum en afskiptum lögreglu vegna fíkniefnamisferlis fjölgaði þó um 4% á milli ára.

Stefnt er að auknu samstarfi við bæjaryfirvöld og íbúa í Kópavogi í því skyni að auka lýsingu á helstu innbrota- og eignaspjallasvæðum og áfram verður lögð áhersla á tíða greiningu upplýsinga varðandi innbrot og miðlun þeirra innan lögreglunnar og til annarra hagsmunaaðila. Einnig er markmið að hvetja íbúa til að koma á fót nágrannavörslu í einhverri mynd.

Langflest þjófnaðarmál í umdæminu eiga sér stað í verslunum, eða í um 61% tilvika. Í tæplega 83% þessara tilvika er um að ræða þjófnað í verslunum verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar. Samstarf var tekið upp við verslunareigendur og forsvarsmenn öryggisfyrirtækja í Smáralind sérstaklega. Einnig hefur verið fræðsla í skólum og forvarna- og upplýsingabæklingum dreift meðal ungmenna og foreldra þeirra sem gerast brotleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×