Innlent

Hvött til að tryggja fjármagn fyrir hágæsluherbergi

MYND/GVA

Siv Friðleifsdóttir, nýr heilbrigðisráðherra, var hvött til þess á þingi í dag til að tryggja fjármagn til að reka hágæsluherbergi á Barnaspítalanum. Ráðherra tók ekki af skarið en sagði málið í skoðun og benti jafnframt á að stjórn spítalans hefði ekki haft slíkt herbergi á forgangslista fyrir þetta fjárlagaár.

Það var Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sem hóf umræðuna en hún spratt af umfjöll fréttaskýringarþáttarins Kompáss á NFS og Stöð 2 í gærkvöld. Þar sögðu foreldrar frá átakanlegri reynslu af því þegar barn þeirra dó í höndunum á þeim á leið frá Barnaspítalanum til gjörgæslunnar í aðalbyggingu Landspítalans. Ágúst kallaði eftir því að heilbrigðisráðherra tryggði rekstarfjármagn fyrir hágæsluherbergi á Landpítalanum og kallaði eftir þverpólitískri samstöðu um málið.

Nokkrir samflokksmenn Ágústs og Gunnar Örlygsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tóku undir orð Ágústs en bæði Sæunn Stefánsdóttir, Framsóknarflokki og Ásta Möller, Sjálfstæðisflokki, bentu á að þörfin á hágæsluherbergi væri tilfallandi en ekki viðvarandi. Nýr heilbrigðisráðherra sagði að málið væri í skoðun en stjórnendur spítalans hefðu ekki sett slíkt herbergi á forgangslista fyrir yfirstandandi fjárlagaár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×