Innlent

Líffæragjafir komi fram í ökuskírteinum

MYND/Vilhelm

Þingmál um að upplýsingar um líffæragjafir komi fram í ökuskírteinum einstaklinga hefur verið lagt fram á Alþingi. Fyrsti flutningsmaður er Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar.

Á Íslandi eru líffæragjafir fátíðari en annars staðar á Norðurlöndunum. Hér á landi fara helmingi fleiri einstaklingar árlega á biðlista eftir líffærum en þeir sem fá líffæri. Á Vesturlöndum deyja nú fleiri sjúklingar sem bíða líffæragjafar en þeir sem fá líffæri. Ágúst Ólafur segir því mikilvægt að fjölga íslenskum líffæragjöfum en hver líffæragjöf geti bjargað allt að sex mannslífum.

Fram til ársins 1991 gátu Íslendingar einungis þegið líffæri frá öðrum þjóðum en ekki lagt þau til sjálfir skv. lögum. Því er nauðsynlegt, að sögn Ágústs, að upplýsingar um vilja til líffæragjafa verði sem aðgengilegastar. Vandfundin sé betri leið en að notast við upplýsingar á ökuskírteini viðkomandi og er það t.d. gert í Bandaríkjunum.

„Skráning þessara upplýsinga á ökuskírteinum er einnig heppileg þar sem það eru oft látnir ökumenn sem koma til greina sem líffæragjafar. Með því að áskilja slíka skráningu á ökuskírteini þarf fólk að ákveða hvort það kærir sig um að gefa líffæri. Hér á landi hafna ættingjar líffæragjöf ættmenna sinna í um 40% tilvika en á Spáni er þetta hlutfall helmingi lægra. Það er því ástæða að auðvelda upplýsingargjöf viðkomandi einstaklings hvort hann kæri sig um að gefa líffæri sín eða ekki," segir Ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×