Innlent

Segir Morgunblaðið spinna pólitískan lopa á kostnað framsóknarmanna

MYND/Anton Brink

Morgunblaðið er farið að spinna pólitískan lopa til að reyna að koma að fulltrúa frjálslyndra í borgarstjórn á kostnað framsóknarmanna og tryggja þannig sjálfstæðismönnum öll völd í málefnum Reykvíkinga. Þetta segir Björn Ingi Hrafnsson, oddviti framsóknarmanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor, á heimasíðu sinni.

Björn Ingi gerir Staksteina Morgunblaðsins síðastliðinn sunnudag að umtalsefni í á heimasíðu sinni í gær. Hann segir að af Staksteinunum megi ráða að meiri svartsýni ríki en áður um að Sjálfstæðisflokkurinn fái hreinan meirihluta kosningunum í borginni í vor og því hafi höfundur Staksteina gripið til „áætlunar F" til að reyna að tryggja sjálfstæðismönnum völdin.

Björn Ingi, sem er fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, segir að í umræddum Staksteinum sé frambjóðanda frjálslyndra í þriðja sæti sérstaklega hampað og kenningin sé sú að hann njóti slíkrar almannahylli að það nægi til að tryggja F-listanum sæti í borgarstjórn á kostnað framsóknarmanna. „Af hverju skyldu spunameistarar sjálfstæðismanna vera áhugasamir um að koma slíkri kenningu á flot?" spyr Björn Ingi og svarar: „Augljóslega af því að þeir sjá í hendi sér að nái Frjálslyndir inn manni færist sjálfstæðismenn nær alræðisvaldi í málefnum borgarinnar. Telja þeir það einu von sjálfstæðismanna um hreinan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur?" spyr hann svo aftur.

Björn Ingi minnir á að frjálslyndir séu klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum og að sagan segi mönnum að slík framboð leiti fyrr eða síðar aftur til uppruna síns. Því sé ekki að undra að gamalreynda stjórnmálaskýrendur í Kringlunni dreymi um að sjálfstæðismenn fái sjö borgarfulltrúa í kosningunum í vor og Frjálslyndir einn. Þannig nái þeir meirihluta, svona bakdyra megin, eins og Björn Ingi orðar það. Menn skuli þó spyrja að leikslokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×