Innlent

Frumvarp um Ríkisútvarpið tryggir ekki starfsfrið

Stjórnarandstaðan segir frumvarp um Ríkisútvarpið ekki tryggja starfsfrið sem stofnuninni sé nauðsynlegur. Varhugavert sé að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag, en slíkt leiði oft til sölu fyrirtækja. Meirihluti menntamálanefndar var sakaður um að hafa rifið frumvarpið úr höndum nefndarinnar áður en það var útrætt.

Minnihlutinn segir meðal annars í nefndaráliti sínu að frumvarpið sé málamiðlun milli stjórnarflokkanna en hlutafélagavæðingin miðist við fyrirtæki í rekstri með hagnað að leiðarljósi en ekki fyrirtæki í almannaþjónustu. Gagnsæi verði ekki leiðarljósið og breytingin gæti því leitt til leyndar og pukurs. Engin trygging sé fyrir því í frumvarpinu að losað verði um pólitísk tök.

Fundur starfsmanna Ríkisútvarpsins óskaði í morgun eftir skýrari upplýsingum frá stjórnvöldum um hvernig fyrirtæki ætti að búa til á grunni gamla Ríkisútvarpsins. Gerðar voru alvarlegar athugasemdir við að ekki lægi fyrir hversu miklum fjármunum stofnunin ætti að ráða yfir. Þá segja starfsmenn lágmarkskröfu að réttindi starfsmanna verði tryggð. Þeir hafi árum saman þolað láglaunastefnu og talið að réttindin myndu vega upp á móti lágum launum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×