Innlent

A-listinn vill ekki einkavæða Keflavíkurflugvöll

MYND/Teitur

A-listinn í Reykjanesbæ telur ekki koma til greina að einkavæða Keflavíkurflugvöll né Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. Þetta segir í tilkynningu frá listanum. Þar segir einnig að að Keflavíkurflugvöllur sé ein af meginstoðum atvinnulífs á Suðurnesjum og því séu hugmyndir um einkavæðingu flugvallarins mjög varhugaverðar, sérstaklega í ljósi þess atvinnuástands sem nú skapist við brotthvarf varnarliðsins.

Keflavíkurflugvöllur sé eini eiginlegi alþjóðaflugvöllurinn á Íslandi og því í einokunarstöðu. Flugvöllurinn og öll nauðsynleg mannvirki í kringum hann eigi að vera í eigu og á forræði þjóðarinnar.

A-listinn telur að því breytingarferli sem fram undan sé sé afar brýnt að samkeppnishæfni Keflavíkurflugvallar sé tryggð í samkeppni við aðra alþjóðaflugvelli og aðra áfangastaði ferðamanna. Afar mikilvægt sé að flugvallargjöld- og skattar séu sem lægst fyrir flugfarþega til að hægt sé að halda verði flugfarmiða sem allra lægst. Leggja verði þunga áherslu á að allar tekjur, í hvaða formi sem er, af rekstri flugvallarins og flugstöðvarinnar fari í uppbyggingu starfseminnar á Keflavíkurflugvelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×