Innlent

Framsóknarmenn vilja flugvöllinn á Löngusker

Framsóknarmenn í Reykjavík boða þjóðarsátt í flugvallarmálum með því flytja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni og út á Löngusker. Flokkurinn stefnir að því að ná tveimur borgarfulltrúm þrátt fyrir að gengi flokksins hafi verið afar slakt í skoðanakönnum.

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík kynnti í dag stefnuskrá sína fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Flokkurinn vill meðal annars að Sundabraut verði lögð með botngöngum á ytri leið og þá vilja þeir úthluta 1200 nýjum lóðum í Úlfarsárdal fyrir árslok 2007. Auk þess boða þeir þjóðarsátt um Reykjavíkurflugvöll og vilja flytja hann út á Löngusker.

Björn Ingi Hrafnsson, oddviti flokksins í borginni, segir að nauðsynlegt sé að hafa innanlandsflug áfram í Reykjavík. Um þúsund störf séu í húfi og frá öryggissjónarmiðum sé mjög brýnt að hafa flugvöllinn í Reykjavík. Þá hafi þeir sem standi fyrir innanlandsflugi bent á að það gæti lagst af ef flugvöllurinn fari úr borginni.

Björn Ingi segir tíma athafnastjórnmála kominn í stað samræðustjórnmálanna. Rifist hafi verið um flugvöllinn í alltof langan tíma og nú sé tími til kominn að taka það deilumál frá og koma með lausn. Sama sé um Sundabraut að segja.

Framsóknarmenn stefna á tvo borgarfulltrúa þrátt fyrir að skoðanakannanir í vetur hafi sýnt að þeir muni ekki koma inn manni. Björn Ingi segir að fylgi í skoðanakönnunum nú sé ákaflega líkt því sem það var í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Þá hafi því verið haldið fram að Halldór Ásgrímsson kæmist ekki inn á þing en flokkurinn hafi fengið þrjá þingmenn sem sé það mesta sem hann hafi fengið í Reykjavík. Framsóknarmenn séu bjartsýnir og telji að það skipti máli að flokkurinn sé með sína rödd í borgarstjórn. Framsóknarflokkurinn sé starfandi í meirihluta í flestum af stærstu sveitarfélögum landsins og hann telji það enga tilviljun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×