Innlent

Málum fjölgar mjög hjá Samkeppniseftirlitinu

Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra
Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra MYND/GVA

Málum sem Samkeppniseftirlitið fær til meðferðar hefur fjölgað mikið undanfarnar vikur. Elsta málið sem er nú á borðum eftirlitsins er tæplega fimm ára gamalt. Þetta kom fram í máli viðskiptaráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, spurði Valgerði Sverrisdóttur viðskiptaráðherra hversu mörg mál væru nú óafgreidd hjá Samkeppniseftirlitinu. Ráðherrann svaraði því til að þegar eftirlitið tók til starfa í júlí í fyrra eftir að Samkeppnisstofnun var lögð niður hafi það tekið við tæplega áttatíu óafgreiddum málum. Þeim fjölda hafi verið haldið í horfinu fram eftir þessu ári, en hins vegar hafi mikil fjölgun orðið á undanförnum vikum þannig að nú er málafjöldinn u.þ.b. hundrað, að sögn Valgerðar.

Sigurjón spurði einnig hvert væri elsta málið sem enn væri í meðförum Samkeppniseftirlitsins. Viðskiptaráðherra svaraði því til að það væri frá því síðla árs 2001. Þess bæri þó að geta að það hafi verið sett í bið vegna forgangsröðunar verkefna stofnunarinnar, auk þess sem brýnir hagsmunir af lokum málsins séu ekki lengur til staðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×