Innlent

400 stúdentaíbúðir byggðar við Hlemm

400 stúdentaíbúðir munu rísa við Hlemm á næstu árum, en Skipulagsráð Reykjavíkur og Byggingafélag námsmanna kynnti þessi áform á blaðamannafundi í dag.

Í dag kynnti Skipulagsráð Reykjavíkur, Byggingafélag námsmanna og Þverási ehf. byggingu nýrra stúdentagarða á lóðum við Þverholt og Einholt við Hlemm. Félögin hafa keypt lóðirnar Þverholt 15-21 og Einholt 6-8 af Keflavíkurverktökum, en um 7.000 nemendur stunda nám í nálægum aðildarskólum BN.

Þverás og BN hyggjast jafnframt byggja söluíbúðir og atvinnuhúsnæði á viðkomandi reit. Stúdentaíbúðirnar verða um 400 og er Vonast til að fyrstu íbúðirnar verði teknar í notkun árið 2008 og uppbyggingu verði að fullu lokið 2011.

Vegna mikillar fjölgunar stúdenta á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri, bæði innlendra og erlendra, hefur þörfin á húsnæði fyrir stúdenta stóraukist árlega.

Benedikt Magnússon, stjórnarfomaður BN, segir að markmið sé að koma til móts við þessa miklu eftirspurn með áframhaldandi uppbyggingu gæðahúsnæðis fyrir stúdenta. Á þessum stað fari saman stuttar vegalengdir að aðildarskólum BN, gott aðgengi að almenningssamgöngum við Hlemm auk nálægðar við miðborg Reykjavíkur. Þannig vilji BN stuðla að þéttingu blandaðrar fjölbreyttrar byggðar á miðborgarsvæðinu, sem hafi víðtæk jákvæð áhrif á bæði sitt nánasta umhverfi, samgöngur, mannlíf miðborgar og rekstur fyrirtækja í miðborginni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×