Innlent

Viðræður í Mosfellsbæ í óvissu

Viðræður um myndun nýs meirihluta í Mosfellsbæ milli Framsóknarflokks, Samfylkingarinnar og Vinstri - grænna eru í mikilli óvissu eftir að framsóknarmenn slitu formlegum viðræðum í dag. Einhverjar þreifingar eiga sér þó stað og ræðst það að öllum líkindum í kvöld eða morgun hvort að samstarfinu verður.

Viðræður um meirihlutasamstarf milli Framsóknarflokks, Samfylkingarinnar og Vinstri - grænna í Mosfellsbæ hófust eftir að ljóst var að Sjálfstæðisflokkurinn hafði tapað hreinum meirihluta sínum í kosningunum á laugardag.

Töluverð leynd hefur hvílt yfir viðræðunum en þær hafa hingað til ekki skilað árangri. Svo virðist sem þolinmæðin sé að bresta hjá framsóknarmönnum því samkvæmt heimildum fréttastofu sendi oddviti framsóknarmanna, Marteinn Magnússon, hinum flokkunum bréf í morgun og sagðist vilja slíta formlegum viðræðum. Ástæðan er sú að tillaga framsóknarmanna um að jafnræði gildi milli flokkanna varðandi skipan í embætti og nefndir í bæjarfélaginu hlaut ekki hljómgrunn í viðræðunum. Framsóknarmenn munu þó hafa lýst yfir vilja til óformlegra viðræðna í kvöld.

Karl Tómasson, oddviti Vinstri - grænna, staðfesti við fréttastofu að framsóknarmenn hefðu viljað slíta formlegum viðræðum og að málið væri á viðkvæmu stigi. Vinstri - græn hefðu þó ekki tekið afstöðu til þeass hvort þau færu í óformlegar viðræður.

Hanna Bjartmars Arnardóttir, annar fulltrúa Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, kannaðist hins vegar ekki við að viðræðum hefði verið slitið en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Ljóst er að málið er viðkvæmt en ekki er ljóst hvort af óformlegum viðræðum milli flokkanna verður í kvöld. Fréttastofu er ekki kunnugt um að viðræður séu hafnar á milli Sjálfstæðisflokksins og einhverra hinna flokkanna um hugsanlegt samstarf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×