Innlent

Ákærður fyrir kynferðislega áreitni í Bretlandi

Íslenskur karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir kynferðislega áreitni gegn unglingsstúlku í Bretlandi. Hann á yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.

Maðurinn, sem er 23 ára gamall, er talinn hafa kynnst stúlkunni, sem er 14 ára, á netinu, en stúlkan býr í Burnley í Englandi. Hann fór til Englands og mælti sér mót við hana á hóteli í Burnley þar sem hann var handtekinn 22. febrúar síðastaliðinn. Maðurinn var í framhaldinu úrskurðaður í gæsluvarðhald og hefur hann setið í því síðan.

Hann var leiddur fyrir dómara í dag, en ákæra hefur verið gefin út á hendur honum. Hann er ákærður fyrir kynferðislega áreitni í tveimur liðum og er hámarksrefsing fyrir hvort um sig 10 ár. Maðurinn tjáði sig ekki um sakarefnin fyrir rétti í dag en málið verður tekið fyrir að nýju um miðjan júlí.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem NFS hefur aflað sér má gera ráð fyrir, ef maðurinn verður sakfelldur, að hann fái 12-15 mánaða dóm og verði síðan vísað úr landi. Maðurinn situr enn í gæsluvarðahaldi sem dregst þá frá dómi, komi til þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×