Innlent

Gætu þurft að fresta afplánun einhverra dóma

Fangelsi landsins eru yfirfull og ef fram heldur sem horfir þurfa fangelsisyfirvöld að fresta afplánun dóma sumra manna vegna plássleysis. Norrænir fangelsisstjórar ræða meðal annars leiðir til að senda erlenda fanga til síns heima til afplánunar og reyna þannig að taka á vandanum.

Lögreglan í Keflavík óskaði í gær eftir því við fangelsismálayfirvöld að færa þrjá menn til gæsluvarðhalds í skamman tíma en var synjað um beiðnina þar sem öll fangelsi eru yfirfull. Að sögn Erlendar Baldurssonar, deildarstjóra hjá Fangelsismálastofnun, hefur ástandið aldrei verið svo slæmt.

Stærstur hluti fanga á Íslandi eru menn sk. afplánunarfangar, þ.e. menn sem afplána lengri eða skemmri dóma. Erlendur segir að ef staðan breytist ekki geti komið til þess að fresta þurfi afplánun dóma hjá einhverjum. Það hafi menn ekki upplifað áður hér á landi en grannþjóðirnar glími við slíkan vanda. Það hljóti að vera ákaflega slæmt að dæmdur maður þurfi að bíða eftir afplánun og sé þá kannski í vandræðum og vitleysu á meðan. Það gangi ekki upp.

Norrænir fangelsisstjórar funda nú á Egilsstöðum og þar hefur komið fram að yfirfull fangelsi eru ekki aðeins vandamál á Íslandi. Þar ræða menn m.a. hvernig taka eigi á fjölgun erlendra fanga, en þeir eru um þriðjungur fanga hér á landi. Unnið er að hugmyndum um hvernig hægt sé að senda erlenda fanga til síns heima til afplánunar.

Erlendur segir þó að það flæki málið svolítið að mannréttindi séu ekki alltaf virt í heimalöndunum og því veigri menn sér við að senda þá þangað. Stefnan hljóti að vera sú að menn séu sendir til síns heima ef þeir brjóti fa sér á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×