Innlent

Ísafjarðarbær dæmdur til að greiða bætur vegna skíðaslyss

MYND/GVA

Hæstiréttur dæmdi í dag Ísafjarðarbæ til að greiða manni um sex milljónir króna í skaðabætur vegna slyss sem hann varð fyrir í skíðaferð á vegum Súðavíkurskóla á skíðasvæði bæjarins í Tungudal árið 2002. Sneri hann að hluta til við dómi héraðdóms sem hafði sýknað Ísafjarðarbæ og Súðavíkurhrepp vegna slyssins.

Slysið varð með þeim hætti að maðurinn féll þegar hann stökk á skíðum á snjóbrettapalli og lenti á höfðinu með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund. Hafa læknar metið varanlega örorku mannsins 80 prósent.

Maðurinn lögsótti bæði Súðavíkurhrepp og Ísafjarðarbæ vegna málsins og taldi pallinn hafa verið stórhættulegan, en maðurinn hafði nokkra reynslu af skíðum. Fór hann fram á rúmar 11,5 milljónir króna í bætur.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að ekki hafi legið fyrir greinargóðar upplýsingar um aðstæður á slysstað en vitni hafi talið umræddan pall hættulegan bæði með tilliti til gerðar hans og staðsetningar.

Var Súðavíkurhreppur sýknaður þar sem ekki var talið að hann bæri neina ábyrgð á slysinu en Ísafjarðarbær var látinn bera hallann af framangreindum skorti á upplýsingum. Hins vegar tók Hæstiréttur undir með héraðsdómi að maðurinn hefði sýnt af sér gáleysi þegar hann renndi sér á pallinum og var hann því látinn bera helming tjóns síns sjálfur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×