Innlent

Dæmdur fyrir ofbeldi gagnvart fyrrverandi eiginkonu

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í þriggja mánaða fangelsi sem er skilorðsbundið til þriggja ára fyrir að hafa ráðist inn á heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar og beitt hana ofbeldi. Fram kemur í dómnum maðurinn hafi komið að heimilinu og viljað fá barn þeirra sem þau deildu um forræði yfir. Því hafi konan neitað og við það hafi maðurinn orðið reiður og meðal annars tekið hana kverkataki.

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi en í ljósi þess að framburður hans var á reiki og framburður konunnar stöðugur ásamt því að barnið staðfesti frásögn móður sinnar þótti sannað að maðurinn hefði gerst sekur um líkamsárás.

Við ákvörðun refsingar var horft til þess að maðurinn hafði aldrei áður komist í kast við lögin en refsingin var þyngd vegna þess að árásin var framin gagnvart fyrrverandi eiginkonu hans, inni á heimili hennar að barni þeirra ásjáandi. Dómurinn telur árásina hafa verið algjörlega tilefnislausa og því var þriggja mánaða skilorðsbundinn dómur talinn hæfileg refsing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×