Skoðun

Allt í forgang allsstaðar

Einar K. Guðfinnsson skrifar
Eitt vinsælasta hugtak stjórnmálabaráttunnar síðustu dægrin er, forgangsröðun; ný forgangsröðun, tiltekin mál í algjöran forgang, af því að þau þola enga bið. Ég hef hlustað á endalausar ræður stjórnarandstöðunnar um þessi mál undanfarnar vikur og greinarnar í blöðunum og orðræðan í útvarps og sjónvarpsþáttum er hlaðin þessu hugtaki.

Hugtakið er í rauninni skýrt. Að setja mál í forgang þýðir einfaldlega að unnið sé að því af meiri krafti en einhverju öðru. Gæði lífsins eru takmörkuð. Skattfé er ekki endalaust, því eru takmörk sett hvað hægt er að kosta úr sameiginlegum sjóðum almennings. Þegar eitt mál er því sett í forgang hefur það áhrif á framvindu annars.

Þessi síðari þáttur málsins er vitaskuld óskemmtilegri en hinn fyrri. Það er leiðinlegra að segja kjósendum sínum að hægja þurfi á einhverju af því að flýta beri öðru. Þá er til eitt heillaráð og það er þetta: Að segja bara að allt eigi að hafa forgang, alltaf, alls staðar og fyrir alla. Þetta er einmitt stefna stjórnarandstöðunnar og hún hefur komið skýrt fram

En þetta er engin stefnumótun. Þetta er stefnuleysi. Þegar menn leggja af stað í svona pólitíska skógarför munu þeir villast; af því einfaldlega að þeir vita ekki hvert eigi að halda. Það er eins og segir í frægu kvæði Indriða G. Þorsteinssonar: Vegir liggja til allra átta/ enginn ræður för. Það var sannarlega vel ort og á einstaklega vel við þegar við förum yfir málflutning stjórnarandstöðunnar.

Í Norðvesturkjördæmi segja okkur frambjóðendur stjórnarandstöðunnar að þeir vilji vegi á Vestfjörðum í forgang, aflétta gjaldi í Hvalfjarðargöng, breikka þjóðveg 1, auka fjármagn í tengivegi. Allt eru þetta forgangsmál. Svo vilja þeir líka setja málefni aldraðra í forgang, einnig málefni barna og ungmenna, skólamálin, leikskólamálin, jöfnunaraðgerðir í byggðamálum. En ekki hækka skatta og líka gæta aðhalds í ríkisfjármálum.

Þetta er stefnuleysi, ekki forgangsröðun. Þetta er ekki pólitík heldur hentistefna. Þetta er ekki trúverðugt, heldur ótrúverðugt. Á þetta er ekki hægt að reiða sig og verður því hafnað 12. maí næst komandi.

Höfundur er sjávarútvegsráðherra.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×