Skoðun

Ráðherra stóreykur hættuna

Í tilkynningu sem Neytendastofa birti síðastliðin vetur stóð m.a.: „Neytendastofa benti utanríkisráðuneytinu á síðasta ári á að raforkukerfi, raflagnir og rafbúnaður á varnarsvæðinu væru ekki í samræmi við íslensk lög og reglur á rafmagnssviði. Í framhaldi af því var haldinn sameiginlegur fundur með Þróunarfélaginu, utanríkisráðuneytinu og Neytendastofu. Í úttekt Neytendastofu á raflögnum og rafbúnaði svæðisins kom í ljós að rafmagnskerfi á svæðinu uppfyllir ekki íslenskar reglur á rafmagnsöryggissviði. Rafföng, s.s. rofar og tenglar, kælar/frystar, heimilistæki o.þ.h. uppfylla ekki kröfur sem gerðar eru vegna öryggiskrafna á EES-svæðinu, þ.m.t. á Íslandi og öll sala, leiga eða önnur afhending þeirra því óheimil. Stofnunin telur því ekki ásættanlegt að húseignir á svæðinu verði teknar í notkun fyrr en raflagnir þeirra, þ.m.t. rafmagnstöflur og annar rafbúnaður, hafa verið færðar til samræmis við íslenskar reglur á rafmagnsöryggissviði."



Það er óheimilt að veita undanþágur frá þessum reglum og eru bráðabirgðalög viðskiptaráðherra ómerk að mati Rafiðnaðarsambands Íslands. Lögfræðingar þess munu kanna það. Það er verið að spila með öryggi hinna ungu fjölskyldna. Þróunarfélagið skapaði ástandið vísvitandi með því að auglýsa og kynna íbúðirnar með ólöglegum rafbúnaði. Það er ekki nóg að setja lekaliða á hluta rafkerfisins, heldur þarf að skipta um allar töflur, raflagnir og öll raftæki.

Ráðherra hefur aukið slysahættuna verulega með því að láta bæði kerfin starfa samtímis. Fyrirsláttur viðskiptaráðherra um að hann hafi ráðið sérfræðing sem hafi starfað í liðlega 30 ár á Keflavíkurflugvelli til þess að setja upp lekaliða stenst ekki, hann þekkir líklega takmarkað núverandi reglugerðir og þann rafbúnað sem í gildi er hér á landi. Vitanlega hefði verið eðlilegra að ráða fagstofur sem starfa í núverandi umhverfi að setja upp áætlun fyrir ári síðan hvernig standa ætti að endurnýjun íbúðanna og taka þær síðan í notkun. Nú þarf fólkið að flytja út á meðan verið er að laga rafkerfin.

Viðskiptaráðherra setur viðskiptahagsmuni ofar öryggi hinna 350 fjölskyldna. Hans hlutverk er að sjá til þess að farið sé að þeim reglum sem í gildi eru. Ráðherra getur ekki sett bráðabirgðalög sem undanskilja tiltekna gæðinga og tiltekin hús frá gildandi rafmagns- og byggingareglugerðum. Vinnubrögð viðskiptaráðherra eru ófagleg og stórhættuleg.



Höfundur er formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×