Fótbolti

Vucinic ekki á leiðinni til Englands

Ómar Þorgeirsson skrifar
Francesco Totti og Mirko Vucinic í leik með Roma.
Francesco Totti og Mirko Vucinic í leik með Roma. Nordic photos/Getty images

Þrátt fyrir að framherjinn Mirko Vucinic sé nýbúinn að skrifa undir nýjan fjögurra ára samning við Roma þá hætta breskir fjölmiðlar ekki að orða Svartfellinginn við félagsskipti til Englands og eru Englandsmeistarar Manchester United á meðal þeirra félaga sem orðuð eru við hann.

Umboðsmaður kappans viðurkennir að félög í ensku úrvalsdeildinni séu búin að spyrjast fyrir um skjólstæðing sinn en telur ólíklegt að eitthvað verði úr því og að hinn 25 ára gamli leikmaður verði líklega áfram á Ólympíuleikvanginum í Róm á næsta tímabili.

„Mirko er mjög ánægður hjá Roma og er nýbúinn að skrifa undir nýjan samning og það er því ástæðulaust fyrir hann að fara eitthvert annað. Það er samt mikill áhugi frá félögum, sérstaklega í ensku úrvalsdeildinni," segir Alessandro Lucci í samtali við Romanews.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×