Fótbolti

Leikmanni Catania rænt í Buenos Aires

Ómar Þorgeirsson skrifar
Pablo Alvarez í leik með Catania.
Pablo Alvarez í leik með Catania. Nordic photos/AFP

Argentínumaðurinn Pablo Alvarez hjá ítalska félaginu Catania lenti í óskemmtilegri lífsreynslu í fyrradag þegar hann var með fjölskyldu sinni í fríi í Buenos Aires í heimalandi sínu en Gazzetta dello Sport greinir frá þessu.

Alvarez, eiginkona hans og níu mánaða gömul dóttir þeirra voru fyrir utan íbúð mömmu varnarmannsins í Buenos Aires þegar grímuklæddir menn gripu Alvarez og neyddu hann til þess að fara upp í bíl með því að hóta dóttur hans með byssu.

Ekkert spurðist til Alvarez í þrjár klukkustundir þegar honum var svo skilað aftur svo að segja heilum á húfi, en hann hafði þá reyndar verið laminn, rændur peningum og einum gullhring.

Flytja þurfti eiginkonu leikmannsins á sjúkrahús en hún fékk taugaáfall þegar uppákoman átti sér stað en fjölskyldunni heilast nú vel eftir leiðinlega lífsreynslu.

Lögreglan í Buenos Aires er að rannsaka málið og hefur lýst eftir kónunum sem rændu Alvarez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×