Fótbolti

Inter búið að kaupa fyrirliða brasilíska landsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lucio er fyrirliði brasilíska landsliðsins.
Lucio er fyrirliði brasilíska landsliðsins. Mynd/AFP

Ítölsku meistararnir í Internazionale frá Mílanó eru búnir að ná samkomulagi við Bayern Munchen um að kaup á Lucio sem er fyrirliði brasilíska landsliðsins. Lucio átti eitt ár eftir að samningi sínum við Bayern en hann hefur spilað undanfarin fimm ár í Munchen.

Lucio var fyrirliði Brasilíu þegar liðið vann Álfubikarinn á dögunum en hann skoraði einmitt sigurmarkið í úrslitaleiknum á móti Bandaríkjunum. Þetta var fjórða landsliðsmark hans í 84 leikjum fyrir Brasilíu en hann var einnig í heimsmeistaraliðinu fyrir sjö árum.

Lucio er 31 árs gamall og 188 sm varnarmaður og gerir þriggja ára samning við ítalska liðið. Hann hefur leikið undanfarin átta ár í Þýskalandi því hann kom til Bayern Munchen frá Bayer Leverkusen.

Hvorugt félagið hefur gefið upp kaupverðið á Lucio sem heitir fullu nafni Lucimar Ferreira da Silva.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×