Fótbolti

Moratti missti þolinmæðina og rak Benitez frá Evrópumeistaraliði Inter

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Rafa Benítez var í kvöld rekinn sem knattspyrnustjóri Evrópumeistaraliðsins Inter á Ítalíu en Spánverjinn tók við starfinu fyrir hálfu ári -
Rafa Benítez var í kvöld rekinn sem knattspyrnustjóri Evrópumeistaraliðsins Inter á Ítalíu en Spánverjinn tók við starfinu fyrir hálfu ári - Nordic Photos/Getty Images

Rafa Benítez var í kvöld rekinn sem knattspyrnustjóri Evrópumeistaraliðsins Inter á Ítalíu en Spánverjinn tók við starfinu fyrir hálfu ári - eftir að hann var rekinn sem knattspyrnustjóri enska liðsins Liverpool.

Inter varð sem kunnugt er Evrópumeistari s.l. vor undir stjórn Jose Mourinho en gengi liðsins hefur verið afleitt undir stjórn Benítez sem var í sex ár hjá Liverpool.Inter er í sjöunda sæti deildarinnar, 13 stigum á eftir AC Milan, sem er efst með 36 stig.







Jose Mourinho fyrrum knattspyrnustjóri Inter fagnar Evrópumeistaratitlinum með forseta félagsins Massimo Moratti.Nordic Photos/Getty Images
Hinn fimmtugi Benítez náði að landa einum titli með Inter en liðið varð heimsmeistari félagsliða í Abu Dhabi um s.l. helgi. Benítez gagnrýndi Massimo Moratti forseta Inter eftir úrslitaleikinn í þeirri keppni og sagði að Moratti hefði ekki staðið við loforð sín um leikmannakaup. Samkvæmt fregnum enskra fjölmiðla er talið að Brasilíumaðurinn Leonardo taki við Inter.

Ítalskir fjölmiðlar skrifuðum um það í gær að Inter væri búið að reka spænska þjálfarann og meðal annars stóð á forsíðu hins virta blaðs La Gazzetta dello Sport: „Benitez er farinn"

Massimo Moratti, forseti Internazionale, hefur neitað að tjá sig um málið í gær en þjálfarinn sjálfur var í útvarpsviðtali í heimalandi sínu þar sem að hann neitaði fréttunum.

„Nei, það er ekki búið að reka mig," sagði Benitez í viðtali við spænsku úrvarpsstöðina Onda Cero í gær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×