Fótbolti

Cassano spilar með AC Milan eftir áramótin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Cassano.
Antonio Cassano. Mynd/AFP
Antonio Cassano, framherji Sampdoria og ítalska landsliðsins, er á leiðinni til AC Milan eftir að hann samþykkti samning um að ganga til liðs við Zlatan Imbrahimovic og félaga.

Real Madrid átti enn inni fimm milljón evra skuld frá því að Cassano lék með liðinu 2006-2007 en Sampdoria, AC Milan og leikmaður sjálfur sameinuðust um að gera upp við spænska liðið.

Hinn 28 ára gamli Cassano kom til Sampdoria frá Real Madrid árið 2007 en hann hefur ekkert spilað með liðinu síðan í október eftir að hann mógðaði forseta félagsins, Riccardo Garrone.

Það er búið að ganga frá samningnum en hann verður þó ekki opinber fyrr en að félagsskiptaglugginn opnar 2. janúar. Cassano fer samt áður í æfingaferð AC Milan til Dúbæ í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en æfingaferðin hefst 27. desember.

Koma Cassano ýtir undir þær sögusagnir að Ronaldinho verði seldur frá AC Milan og þá líklega til bandaríska liðsins Los Angeles Galaxy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×