Skoðun

Einar Skúlason: Atvinna og aftur atvinna

Einar Skúlason skrifar

Atvinnuleysi af þeirri stærðargráðu sem við Íslendingar höfum séð undanfarið er ólíðandi. Reykjavíkurborg á að taka atvinnuleysisvandann innan sinna borgarmarka föstum tökum og leysa hann sem fyrst.

Fjölmargt er hægt að gera. Það má stórauka viðhald bygginga í eigu borgarinnar og leggja í þeim efnum sérstaka áherslu á mannaflsfrek verkefni. Við eigum að ráðast í fjölbreytt atvinnuátaksverkefni fyrir ólíka aldurshópa í samvinnu við Atvinnuleysistryggingasjóð. Við þurfum að endurvekja Aflvaka, atvinnuþróunarfélag Reykjavíkur, og markaðssetja borgina sem aðsetur fyrir atvinnustarfsemi. Við þurfum að setja á fót frumkvöðlasetur fyrir ungt fólk þar sem áhersla verði lögð á þróun hugmynda á sviði ferðaþjónustu og innlends iðnaðar. Borgin á líka að bjóða skólafólki upp á fjölbreytta sumarvinnu.

Allt það sem við leggjum af skynsemi til atvinnumála á þessari stundu mun margborga sig síðar. Við þurfum að horfa til framtíðar. Við eigum til dæmis Orkuveituna. Í henni felast miklir möguleikar.

Á vegum hennar eigum við að bjóða upp á sveigjanlegri orkusölusamninga sem laða að fleiri tegundir af fyrirtækjum en hingað til hefur verið raunin. Við eigum að setja fyrirtæki í forgang sem skapa mörg störf og eru umhverfisvæn. Í ferðaþjónustunni finnst líka urmull tækifæra til þess að auka atvinnu. Við þurfum að efla Reykjavík í alþjóðlegri samkeppni á sviði ferðamála með áherslu á borgina sem áfangastað, þar sem fjölbreytt afþreying er í boði.

Lykilatriðið er þetta: Atvinna og aftur atvinna. Það er verkefni borgarmálanna.






Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×