Skoðun

Hanna Birna Kristjánsdóttir: Aukin þjónusta við íbúa

Reykjavíkurborg leggur áherslu á að bæta stöðugt þjónustu við íbúa í þeirra eigin nærumhverfi. Borgaryfirvöld eru meðvituð um að þarfir íbúanna eru ólíkar eftir hverfum og þörfin fyrir hverfamiðaða þjónustu og upplýsingar er mikil. Hvert þeirra tíu hverfa sem borgina byggja, allt frá vesturbæ norður á Kjalarnes, hafa sína sérstöðu.

Á undanförnum árum hafa stór skref verið stigin í þá átt að bæta nærþjónustu Reykjavíkurborgar. Öflugar þjónustumiðstöðvar tóku til starfa, hverfisráð voru sett á laggirnar í öllum hverfum, Hanskinn var tekinn upp til að hreinsa og fegra hverfin og í fyrsta sinn fengu íbúar hverfanna tækifæri til að kjósa um smærri viðhaldsverkefni og nýframkvæmdir í fjárhagsáætlun þessa árs, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Markmið borgaryfirvalda er að huga enn betur að nærþjónustu í hverju hverfi með aukinni upplýsingagjöf, bættu aðgengi og fleiri tækifærum til þátttöku í ákvörðunum er varða það sem stendur íbúum næst. Stórt skref í þessa átt var tekið með opnun tíu nýrra hverfavefja í vikunni. Þar er hægt að nálgast greinargóðar upplýsingar um þjónustu Reykjavíkurborgar í hverju hverfi fyrir sig. Hverfavefina er að finna á heimasíðunni hverfidmitt.is.

Hverfavefirnir hafa einnig að geyma fróðlegar upplýsingar um íbúasamsetningu í hverju hverfi, nýlegar framkvæmdir, framkvæmdir á yfirstandandi ári, niðurstöðu íbúakosningar, hugmyndir íbúa um skipulag, hverfislöggæslu, stolt hverfanna, myndasöfn með ljósmyndum úr hverfinu, auk frétta um viðburði og tíðindi sem tengjast hverfunum.

Síðast en ekki síst gefst íbúum kostur á að koma hugmyndum sínum og ábendingum um þjónustu Reykjavíkurborgar í hverfinu á framfæri í gegnum hverfavefina. Með viðkomu á þjónustumiðstöðvunum renna skilaboðin beint til viðeigandi starfsmanna innan Reykjavíkurborgar til frekari vinnslu og upplýsingamiðlunar.

Opnun nýrra hverfavefja á slóðinni hverfidmitt.is er enn eitt framfaraskrefið í upplýsingamiðlun og samráði við borgarbúa. Ég vil nota tækifærið og hvetja íbúa til að nýta sér þessa nýjung, ekki aðeins til að leita upplýsinga um allt það sem í boði er í hverju hverfi, heldur ekki síður til að hafa enn frekari áhrif á ákvarðanir og aðgerðir er varða hverfin í borginni og þar með lífsgæði íbúanna.






Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×