Fótbolti

Krasic fékk tveggja leikja bann fyrir leikaraskap

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Milos Krasic.
Milos Krasic. Mynd/AP

Serbneski leikmaðurinn Milos Krasic hjá Juventus var í dag dæmdur í tveggja leikja bann fyrir að fiska víti á óheiðarlegan hátt í markalausu jafntefli á móti Bologna um helgina.

Ítalska knattspyrnusambandið studdist við sjónvarpsupptökur af leiknum þegar dæmt var í málinu en Krasic hafði verið harðlega gagnrýndur í ítölskum fjölmiðlum síðustu tvo daga.

Milos Krasic fiskaði víti á 34. mínútu leiksins á móti Bologna þegar hann datt í grasið eftir að hafa fengið litla sem enga snertingu frá Daniele Portanova, varnarmanni Bologna. Réttlætinu var kannski fullnægt þegar Emiliano Viviano, markvörður Bologna, varði vítið frá Vincenzo Iaquinta.

Það er hægt að sjá atvikið með því að smella hér en það gerist þegar um mínúta eru búin af myndbandinu.

Milos Krasic verður því ekki með Juventus í stórleiknum á móti AC Milan á laugardaginn kemur. Hann mun einnig missa af leik liðsins á móti Cesena sem fer fram 7. nóvember.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem leikmaður er dæmdur í leikbann fyrir leikaraskap í ítölsku deildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×