Skoðun

Læra lexíu

Svavar Gestsson skrifar
Það er heldur snautlegt ef lekinn úr Wikileaks verður bara frá allra síðustu mánuðum. Fróðlegt væri að sjá skrif bandarískra embættismanna frá kaldastríðsárunum. Athyglisvert er að virða fyrir sér viðbrögð Björns Bjarnasonar við þessum leka. Nú er allt lygi, bull og þvaður sem kemur frá bandarískum diplómötum á Íslandi.

Það er annars makalaust að þessi skjöl skuli birtast og spennandi verður að sjá þegar það kemur fram hvernig þessi skjöl hafa komist í hendur þeirra sem hafa nú birt þau. Vonandi koma kaldastríðsskjölin fram svo þjóðin geti skoðað samskipti Sjálfstæðisflokksins og bandaríska sendiráðsins.

Margt má segja um þessar frásagnir bandarískra embættismanna. Ekki fer hjá því að maður velti því fyrir sér hvort bandarískir sendimenn á Íslandi séu í lakari kantinum. Ég hef aldrei komið í bandaríska sendiráðið á Íslandi nema til að sækja vegabréfsáritun sem ég fékk ekki. Hef aldrei kynnst bandarískum sendiherrum á Íslandi og hef engar forsendur til að meta þetta fólk. Kynntist reyndar mörgum prýðilegum bandarískum sendimönnum þar sem ég þjónaði sem sendiherra fyrir Ísland erlendis.

Það læðist að manni sá grunur að það hafi ekki verið verra að bandarískur sendiherra fékk ekki íslenskt heiðursmerki svo sem frægt var.

En það er hins vegar beinlínis niðurlægjandi hvernig bandarískir diplómatar tala um Íslendinga almennt. Það minnir á nýlenduveldin forðum, minnir á sögur um eldvatn og glerperlur handa indíánum, frumbyggjum. Eftir þessa birtingar - sem ber að þakka fyrir og vonandi kemur meira - hljóta íslensk yfirvöld hins vegar að velta því fyrir sér hvort það sé óhætt að tala við bandaríska sendimenn. Um það þarf greinilega að setja nýjar reglur. Til dæmis að ræða aldrei einslega við þá og aldrei nema að viðstöddum riturum. Íslendingar þurfa að eiga góð samskipti við Bandaríkin; lekinn bendir hins vegar til þess að bandarískir sendimenn á Íslandi þurfi að læra lexíu.








Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×